Körfubolti

Arenas ætlar að hefna sín á þjálfurum sínum

Gilbert Arenas ætlar að taka gremju sína út á þjálfurum bandaríska landsliðsins í vetur og ætlar að vera með 50 stig að meðaltali í leik gegn Portland og Phoenix.
Gilbert Arenas ætlar að taka gremju sína út á þjálfurum bandaríska landsliðsins í vetur og ætlar að vera með 50 stig að meðaltali í leik gegn Portland og Phoenix. NordicPhotos/GettyImages

Skorunarmaskínan Gilbert Arenas hjá Washington Wizards hugsar þjálfurum sínum hjá bandaríska landsliðinu nú þegjandi þörfina eftir að hann komst ekki í lokahópinn á HM í Japan á dögunum og ætlar að hefna sín rækilega á þeim þegar deildarkeppnin í NBA hefst síðar í haust.

Arenas náði ekki að vinna sér sæti í 12 manna hóp Bandaríkjamanna á HM og datt úr úr hópnum nokkrum dögum áður en liðið fór til Japan. Ákvörðun þjálfaranna um að taka hann ekki með á mótið var auðveldari eftir að Arenas meiddist lítillega á síðustu dögum æfingabúðanna, en það þýðir alls ekki að leikmaðurinn sé sáttur við niðurstöðuna.

Arenas hefur alltaf verið mikill keppnismaður og þrífst á mótlæti og því að sanna fyrir mönnum sem ekki hafa haft trú á honum í gegn um tíðina að hann sé einn af allra bestu leikmönnum deildarinnar. Arenas spilar t.d. í treyju númer 0 til að minna sig á hvaða trú fólk hefur á sér.

Þjálfarar landsliðsins eru þeir Mike D´Antoni hjá Phoenix Suns og Nate McMillan hjá Portland Trailblazers og Arenas gaf út yfirlýsingu fyrir nokkru þar sem hann lofaði að vera með 50 stig að meðaltali í leik gegn þessum tveimur liðum í vetur. Mike D´Antoni var í gær spurður út í yfirlýsingu Arenas og hafði þetta að segja um málið.

"Ég get skilið að hann sé nokkuð ósáttur við að komast ekki í landsliðið, en hann ætti nú alls ekki að vera það, þar sem það er mikill heiður að vera á meðal þeirra 25 sem eru í upphaflega hópnum. Við Nate erum þó líklega einu mennirnir sem hann getur tekið gremju sína út á - og vitið þið hvað? Á miðað við varnarleikinn sem við spilum, kæmi það mér ekki á óvart þó hann skoraði 100 stig á okkur. Ég vona að honum takist það, en ég er hræddur um að 100 stig yrðu ekki nóg fyrir hann," sagði D´Antoni hæðnislega.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×