Viðskipti innlent

Líkur á 7,7 milljarða króna vöruskiptahalla

Bráðabirgðatölur Hagstofunnar benda til að vöruskiptahalli verði 7,7 milljarða króna september. Gangi þetta eftir hafa vöruskipti ekki verið lægri síðan í febrúar á þessu ári.

Í Hagvísum Hagstofunnar segir að verðmæti útflutnings hafi numið 22,3 milljörðum króna í mánuðinum en verðmæti innflutnings 30 milljörðum króna.

Greiningardeild Glitnis segir í Morgunkorni sínu að vöruskipthallinn hafi náð hámarki í sumar þegar krónan hafði fallið og stóriðjuframkvæmdir voru sem umfangsmestar. Deildin segir þess þó verða að gæta að hallinn er minni að raunvirði nú en þá, þar sem gengi krónu er lægra nú. Meginrót minni halla liggi í stórauknum útflutningi, sem jókst um rúman þriðjung frá fyrri mánuði meðan innflutningur jókst um rúm 6 prósent milli mánaða.

Vöruskiptahalli á 3. ársfjórðungi reyndist þó rúmir 38 milljarðar króna í heild var helmingur þess halla til kominn í júlí.

Greiningardeildin segir líkur á að rekja megi aukinn útflutning til vaxandi framleiðslugetu á áli.

Deildin segir ennfremur líkur á að vöruskiptahalli minnki enn það sem eftir er árs með auknum álútflutningi, minni innflutningi fjárfestingarvara til stóriðju og hægari innflutningi á bifreiðum og öðrum varanlegum neysluvörum. Á næsta ári muni svo jöfnuður vöruskipta batna enn meir þegar um hægist í hagkerfinu og álútflutningur eykst með tilkomu álvers í Reyðarfirði.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×