Innlent

Fjárlaganefnd vill setja Öryggismálanefnd í gang

Meirihluti fjárlaganefndar Alþingis vill að Öryggismálanefnd, samstarfsvettvangur allra stjórnmálaflokkanna verði sett á laggirnar á vegum forsætisráðuneytisins. Meirihluti fjárlaganefndar leggur til að framlagið til þessarar nýju Öryggismálanefndar verði 16 milljónir króna árið 2007. Í álitinu sínu vísar meirihlutinn til yfirlýsingar ríkisstjórnarinnar frá 26. september um ný verkefni íslenskra stjórnvalda við brottför varnarliðsins.

Meirihlutaálitið gerir ráð fyrir að útgjöld ríkisins hækki um 9,6 milljarða króna miðað við frumvarp Árna Mathiesen, fjármálaráðherra og að tekjuhliðin hækki um þrjá miljarða. Meðal hækkana sem lagðar eru til í meirihlutaálitinu eru eins miljarðs króna hækkun til að styrkja rekstargrunn Landsspítala Háskólasjúkrahúss, sem er til viðbótar þeim milljarði sem rætt var um í tengslum við fjáraukalög fyrir árið 2006. Þá er lagt til 300 milljóna króna hækkun á framlögum til Háskóla Íslands í samræmi við ákvæði nýs kennslu- og rannsóknasamnings sem fyrirhugað er að gera við skólann. Þá er líka gerð tillaga um 70 m.kr. hækkun fjárveitingar til rannsókna hjá Háskólanum á Akureyri, 140,9 m.kr. hækkun á framlagi til Sinfóníuhljómsveitarinnar, og 123 milljón króna hækkun á fjárveitingu í kvikmyndasjóð vegna endurnýjunar á samkomulagi sem menntamála- og fjármálaráðherra gera við samtök í íslenskri kvikmyndagerð.

Þá leggur meirihluti fjárlaganefndar til 280 milljóna króna tímabundið framlag til umsjónar fyrrum varnarsvæðis. Kostnaðurinn felst m.a. í umsýslu, viðhaldi, öryggisgæslu, umhirðu og öðrum húsnæðiskostnaði. Stofnað hefur verið þróunarfélag sem mun halda utan um rekstur svæðisins. Er fjárveitingunni einnig ætlað að standa undir kostnaði við þróun og umbreytingu á svæðinu. Fjárveitingin verður lækkuð þegar fasteignir á svæðinu verða settar í sjálfbær borgaraleg not.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×