Viðskipti innlent

HugurAx kaupir Mekkanis hugbúnaðarstofu

Eigendur Mekkanis hugbúnaðarstofu og HugurAx undirrituðu nýverið samning um kaup þess síðarnefnda á öllu hlutafé í Mekkanis. Í framhaldi af þessu verða félögin tvö sameinuð.

Í tilkynningu frá félögunum eftir haft eftir Páli Freysteinssyni, framkvæmdastjóra HugarAx, að fyrirtækið hafi átt gott samstarf við starfsmenn og eigendur Mekkanis á undanförnum misserum, en fyrirtækið tók að sér stórt þróunarverkefni fyrir HugAx sem fólst í að endurskrifa Ópusallt viðskiptalausnina fyrir .NET umhverfi Microsoft.

„Þegar menn settust niður og veltu fyrir sér framtíðinni var fljótt ljóst að við höfðum þar sameiginlega sýn og því var auðvelt fyrir okkur að ná saman'', segir hann.

Í sama streng taka Árni Reginsson og Birgir Kristmannsson forráðamenn Mekkanis. ,,Við lítum á þetta sem mikið tækifæri að ganga til liðs við HugAx og teljum að þar muni okkar kunnátta og hæfileikar nýtast vel. HugurAx vill m.a. auka veg eigin lausna sinna og um leið nýta sér .NET tæknina betur á ýmsum sviðum, m.a. við samþættingu hugbúnaðarlausna. Þar teljum við okkur hafa mikið fram að færa'', segja Árni og Birgir.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×