Enski boltinn

Thierry Henry vill fá SWP til Arsenal

Shaun-Wright Phillips er eftirsóttur af mörgum liðum í ensku úrvalsdeildinni.
Shaun-Wright Phillips er eftirsóttur af mörgum liðum í ensku úrvalsdeildinni. MYND/Getty Images

Thierry Henry, fyrirliði Arsenal, hefur ráðlagt stjóra sínum Arsene Wenger að fá til sín enska vængmanninn Shaun-Wright Phillips frá Chelsea þegar opnað verður fyrir félagsskipti leikmanna að nýju í næsta mánuði.

Henry lýsti því yfir í samtali við enska fjölmiðla að lítil breidd Arsenal væri mikið áhyggjuefni og kveðst fyrirliðinn búast fastlega við því að Wenger reyni að fá nokkra leikmenn til liðsins í næsta mánuði.

"Það er hægt að gera mjög góða samninga með því að fá leikmenn lánaða. Eitt nafnið sem kemur strax upp í hugann er Shaun-Wright Phillips. Ef hann fengi tækifæri á láni hjá okkur er ég sannfærður um að hann myndi gera mjög góða hluti," sagði Henry, en þó er talið afar ólíklegt að Chelsea hafi áhuga á að lána Phillips, sérstaklega til erkifjanda á borð við Arsenal.

Henry sagði jafnframt að Arsenal þyrfti á tvöföldu kraftaverki að halda ætli liðið sér að verða enskur meistari. "Það þurfa þá tvö lið að missa formið í langan tíma og við mættum að sama skapi ekki tapa mikið fleiri stigum á tímabilinu. Það er nánast vonlaust, en þó ekki útilokað," sagði Henry.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×