Innlent

Ekið frá Selfossi til Alþingis með undirskriftir í dag

Sunnlendingar og fleiri hyggjast fjölmenna í bílalest þar sem ekið verður frá Tryggvaskála á Selfossi og niður að Alþingishúsi í miðbæ Reykjavíkur. Þar ætla þeir að afhenda Alþingi undirskriftir 25 þúsund Íslendinga sem skora á þingið að lögfesta tvöföldun Suðurlandsvegar án tafar.

Umræður um tvöföldun Suðurlandsvegar hafa verið háværar í þjóðfélaginu að undanförnu enda hefur umferð um veginn hefur vaxið hörðum skrefum undanfarin ár og fara nú um 11 þúsund bílar um hann á dag. Þverpólitísk samstaða virðist um efnið og hefur samgönguráðherra lýst því yfir að hann vilji tvöfalda veginn.

Hópi manna á Suðurlandi þykir þetta ekki nóg hafa undanfarnar þrjár vikur staðið fyrir undirskriftasöfnun þar sem farið er fram á að Alþingi samþykki tafarlaust að tvöfalda veginn. Eyþór Arnalds, einn þeirra sem staðið hafa að undirskriftasöfnuninni, segir að lagt verði af stað frá Tryggvaskála klukkan 16 og komið að Alþingishúsinu um klukkan fimm þar sem undirskriftirnar verða afhentar. Eyþór segir að áskorunin sé vel meint og stuðningsyfirlýsing við þá sem geri vel.

 

Efasemdir hafa komið fram um það að tvöfalda þurfi veginn og bent á lítill munur sé á slysatíðni á þriggja akreina vegum og fjögurra akreina. Eyþór segir um það að Sunnlendingar og flestir í landinu séu sammála um að aðeins það besta sé nógu gott. Reykjanesbrautin hafi sannað gildi sitt og sambærilegur vegur eigi að liggja um Suðurland. Þetta sé ákvörðun sem varði ekki daginn í dag heldur næstu áratugi.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×