New York Times hefur þetta eftir heimildamönnum sínum, meðal annars innan úr bandaríska stjórnkerfinu, sem fengið hafa upplýsingar um málið.
Í frétt NYT segir að símboðarnir, sem Hezbollah hafi pantað frá fyrirtækinu Gold Appollo í Taívan, hafi innihaldið um 30 til 60 grömm af sprengieni hver. Efninu hafi verið komið fyrir við rafhlöðu hvers tækis, sem einnig var búið fjarstýrðum hvellhettum sem hægt hafi verið að virkja úr langri fjarlægð.
Hér að neðan má sjá tvö myndband af því þegar símboðarnir sprungu.
🚨 Breaking: Tens of Hezbollah communication devices are exploding during the past hour. Initial reports state that over one hundred Hezbollah terrorists already injured.
— Dr. Eli David (@DrEliDavid) September 17, 2024
Here's footage from two such explosion 👇 pic.twitter.com/rMwdRWsTGB
Klukkan 15:30 að staðartíma í Líbanon fengu allir símboðarnir skilaboð, sem virtust fyrst um sinn koma frá leiðtogum Hezbollah. Svo reyndist ekki vera, heldur virkjuðu skilaboðin hvellhetturnar með þeim afleiðingum að rúmlega 2.800 manns slösuðust og minnst níu létu lífið.
Einhverjum símboðanna, sem voru um þrjú þúsund talsins, hafði einnig verið dreift til bandamanna Hezbollah í Sýrlandi og Íran. Árásin hafði áhrif á öll þau tæki sem kveikt var á og gátu tekið við skilaboðum.
Hezbollah hefur sakað Ísraelsmenn um árásina, sem hafa ekki tjáð sig um hana. NYT hefur eftir sérfræðingi í netöryggi að af myndskeiðum að dæma sé ljóst að sprengiefni hafi verið í tækjunum.
„Líklega var búið að eiga við símboðana með einhverjum hætti, gagngert til að valda sprengingum. Stærð og styrkur srpengingarinnar gefur til kynna að þetta hafi ekki bara verið rafhlaðan,“ segir Mikko Hypponen, rannsóknarsérfræðingur hjá hugbúnaðarfyrirtækinu WithSecure og ráðgjafi um netglæpi hjá Interpol.
Höfðu varann á varðandi farsíma
Fyrr á árinu takmarkaði Hassan Nasrallah, leiðtogi Hezbollah-samtakanna, verulega notkun liðsmanna sinna á farsímum, sem hann taldi viðkvæma fyrir njósnum Ísraelsmanna.
„Þessari árás var miðað á akkílesarhæl samtakanna, því hún gerði úti um helstu samskiptaleið þeirra,“ hefur NYT eftir Keren Elazeri, ísraelskum netöryggisgreinanda hjá háskólanum í Tel Aviv.