Innlent

SUS tætir í sig frumvarp um starfsemi stjórnmálaflokka

MYND/Stöð 2

Framkvæmdsastjórn sambands ungra sjálfstæðismanna telur frumvarpið, sem nú liggur fyrir Alþingi um fjármál stjórnmálaflokka, meingallað og varar við þeim grundvallarsjónarmiðum sem ráðið hafa för við gerð þess.

Framkvæmdsastjórnin hefur lagt greinargerð fyrir allsherjarnefnd Alþingis með þessu áliti sínu og segir í tilkynningu í dag, að með frumvarpinu séu stjórnmálaflokkarnir að misnota umboð sitt frá almenningi í þeim tilgangi að viðhalda eigin völdum. Í frumvarpinu sé gert ráð fyrir stórauknum framlögum ríkisins til þeirra stjórnmálaflokka sem þegar eiga sæti á Alþingi, þ.e. núverandi valdhafa. Einnig sé reist hindrun við því að nýjar hugmyndir og nýtt fólk hljóti hljómgrunneð með því að takmarka framlög einstaklinga og fyrirtækja til stjórnmálaflokka.

Að mati ungra sjálfstæðismanna er vítavert ef Alþingi hleypir þessu vanhugsaða máli í gegn í flýtimeðferð eins og nú standi til, eins og segir í tilkynningunni. Þeir segja málið varði grunnþætti í framkvæmd lýðræðisins og að lýðræðið eigi skilið meiri virðingu en svo, að reglum um það sé gjörbylt í offorsi og án málefnalegrar umræðu, þar sem aðrir en atvinnustjórnmálamenn tækju þátt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×