Enski boltinn

Pardew rekinn frá West Ham

Alan Pardew hefur fengið að taka pokann sinn hjá West Ham eftir skelfilega byrjun liðsins í ensku úrvalsdeildinni
Alan Pardew hefur fengið að taka pokann sinn hjá West Ham eftir skelfilega byrjun liðsins í ensku úrvalsdeildinni NordicPhotos/GettyImages
Alan Pardew var í dag sagt upp störfum sem knattspyrnustjóri West Ham eftir slakt gengi liðsins í ensku úrvalsdeildinni. Fram kemur í tilkynningu frá félaginu, sem er nú í eigu Íslendinga, að það sé gert með hagsmuni félagins í huga en það er Kevin Keen, þjálfari liðsins, tekur við því tímabundið.

Eins og kunnugt er keyptu Eggert Magnússon og Björgólfur Guðmundsson félagið á dögunum og í kjölfarið lýsti Eggert, sem er stjórnarformaður félagsins, yfir fullu trausti á Pardew.

Frá því að Eggert settist í stól stjórnarformanns í lok nóvember hefur liðið leikið fjóra leiki. Þann fyrsta vann West Ham á heimavelli gegn Sheffield United en síðan hefur liðið tapað þremur leikjum, nú síðast gegn Bolton á útivelli 0-4 og situr liðið nú í þriðja neðsta sæti úrvalsdeildarinnar og þar með í fallsæti.

Pardew varð knattspyrnustjóri West Ham í október árið 2003 og kom liðinu meðal annars í úrslit bikarkeppninnar í vor.

Sven Göran Eriksson, fyrrverandi landsliðsþjálfari Englands og Alan Curbishley, fyrrverandi knattspyrnustjóri Charlton, hafa báðir verið orðaðir við stöðu knattspyrnustjóra að undanförnu.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×