Enski boltinn

Vantar allt sjálfstraust í liðið

Les Reed og félagar í Charlton eru í vondum málum í ensku úrvalsdeildinni
Les Reed og félagar í Charlton eru í vondum málum í ensku úrvalsdeildinni NordicPhotos/GettyImages

Les Reed, stjóri Charlton í ensku úrvalsdeildinni, segir að lið sitt vanti allt sjálfstraust eftir hörmulegt gengi það sem af er vetri og segir að mikil meiðsli í herbúðum þess hjálpi ekki til. Liðið tapaði 3-0 fyrir Liverpool á heimavelli í dag og er í vondum málum á fallsvæðinu.

"Liverpool hefði auðveldlega geta skorað miklu fleiri mörk á okkur í dag, en nýttu ekki færi sín. Við náðum hinsvegar aldrei að nýta okkur það með því að svara fyrir okkur. Við áttum ágæta spretti þegar korter var eftir af leiknum og staðan 1-0 fyrir þá - en þá var okkur refsað fyrir lélegan varnarleik og Liverpool kláraði leikinn. Sagt er að ekkert falli með manni þegar maður er á botninum og það er ekki gott fyrir sjálfstraustið í hópnum þegar við fáum á okkur mark strax eftir tvær mínútur og erum með alla þessa menn á meiðslalista. Ég er ekki að afsaka okkur, en hópurinn er eins og slysavarðstofa í augnablikinu, okkur skortir sjálfstraust og allt fellur á móti okkur um þessar mundir," sagði Reed.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×