Enski boltinn

Baulið gerir Ronaldo bara betri

Cristiano Ronaldo hefur verið magnaður í vetur.
Cristiano Ronaldo hefur verið magnaður í vetur. MYND/Getty

Baulið sem Cristiano Ronaldo þarf að þola í útileikjum Manchester United gerir hann aðeins að betri leikmanni. Þetta er álit Edwin van der Saar, markvarðar og samherja Ronaldo hjá Man. Utd.

Ronaldo er ennþá kennt um ófarir enska landsliðsins á HM í sumar eftir meintan þátt hans í því að fá Wayne Rooney vikið af leikvelli í viðureign Englands og Portúgals í 8-liða úrslitum keppninnar. Hann hefur hins vegar verið í fantaformi það sem af er leiktíð og skoraði m.a. tvö mörk í sigurleiknum gegn Aston Villa á Þorláksmessu. Og van der Saar segir að Ronaldo eigi aðeins eftir að verða betri.

Stuðningsmenn Man. Utd. hafa staðið við bakið á Ronaldo og það skapar gott mótvægi við þær viðtökur sem hann fær á útivöllum. Hins vegar held ég að baulið þar geri hans enn einbeittari í að standa sig vel. Og sú er einmitt raunin: Þetta baul hefur engin áhrif á hann – þvert á móti hefur baulið frekar góð áhrif á hann,” segir van der Saar.

Ronaldo hefur skorað átta mörk það sem af er leiktíð og telur van der Saar að þau eigi eftir að verða mun fleiri áður en tímabilið er á enda. “Hann getur auðveldlega náð yfir 15 mörkum. Hann er ótrúlegur leikmaður og í frábæru formi í augnablikinu. Ég sé ekki marga leikmenn sem skáka honum í þessari deild í dag,” sagði hollenski markvörðurinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×