Enski boltinn

Chelsea tapaði stigum á heimavelli

Didier Drogba skoraði bæði mörk Chelsea í dag. Hér sést hann nýbúinn að skora það fyrra og Brynjar Björn Gunnarsson horfir á með böggum hildar.
Didier Drogba skoraði bæði mörk Chelsea í dag. Hér sést hann nýbúinn að skora það fyrra og Brynjar Björn Gunnarsson horfir á með böggum hildar. MYND/Getty

Englandsmeistarar Chelsea náðu aðeins jafntefli gegn nýliðum Reading á heimavelli sínum í ensku úrvalsdeildinni í dag. Lokatölur urðu 2-2 og á Manchester United því alla möguleika á að ná fjögurra stiga forystu með því að sigra Wigan á heimavelli sínum í leik sem hefst kl. 15.

Það var hinn sjóðheiti Didier Drogba sem skoraði bæði mörk Chelsea á Stamford Bridge í dag, hið fyrra á 38. mínútu en hið síðara á þeirri 72. Skömmu áður, eða á 67. mínútu, hafði Leroy Lita jafnað fyrir gestina. Það var síðan einkar slysalegt sjálfsmark frá Michael Essien á 85. mínútu sem tryggði Reading annað stigið í leiknum.

Ívar Ingimarsson og Brynjar Gunnarsson léku báðir allan leikinn fyrir Reading, Ívar í vörninni en Brynjar á miðjunni.

Tveir aðrir leikir fóru fram kl. 13 í dag. Eggert Magnússon og lærisveinar hans í West Ham máttu þola 2-1 tap á heimavelli fyrir Portsmouth. Linvoy Primus skoraði bæði mörk gestanna en Teddy Sheringham minnkaði muninn fyrir West Ham á lokamínútunum. West Ham er sem fyrr í þriðja neðsta sæti deildarinnar.

Þá vann Tottenham góðan sigur á Aston Villa á heimavelli sínum, 2-1, þar sem Jermain Defoe skoraði bæði mörk heimamanna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×