Enski boltinn

Pardew ánægður með sigurinn

Alan Pardew gat leyft sér að brosa eftir langþráðan sigur í dag.
Alan Pardew gat leyft sér að brosa eftir langþráðan sigur í dag. MYND/Getty

Alan Pardew, knattspyrnustjóri Charlton, segir að frammistaða sinna manna gegn Aston Villa í dag sýni og sanni að liðið eigi heima í ensku úrvalsdeildinni. Charlton sigraði 2-1 í leiknum, þar sem Hermann Hreiðarsson lagði upp sigurmarkið á 91. mínútu.

Hermann skallaði þá boltann fyrir Bryan Hughes sem skallaði boltann áfram og inn í mark Aston Villa. Charlton er nú fimm stigum frá því að komast upp úr fallsæti og vonast Pardew til þess að sá áfangi náist sem allra fyrst.

“Það hefði verið ósanngjarnt ef við hefðum ekki fengið öll þrjú stigin úr þessum leik,” sagði Pardew. “Við nálgumst óðum liðin sem eru fyrir ofan okkur og ég held að þau verði stressaðri eftir þennan sigur okkar í dag. Það er öll pressa á andstæðingum okkar núna og ég held að leikmenn mínir séu mjög afslappaðir þrátt fyrir slakt gengi að undanförnu.”

Markaskorarinn Hughes var á sama máli. “Við leikmennirnir höfum mikla trú á okkur sjálfum og sú trú skilaði okkur sigri í dag. Pardew hefur komið með ferska vinda inn í liðið og veitt okkur aukið sjálfstraust.”




Fleiri fréttir

Sjá meira


×