Erlent

Skatan í útrýmingarhættu

Íslenska skatan er í mikilli hættu á að deyja út, samkvæmt nýjum válista umhverfisverndarsamtakanna, World Conservation Union. Sextán þúsund dýra- og plöntutegundir er að finna á listanum, þar á meðal hvítabirni og flóðhesta í fyrsta sinn.

World Conservation Union birta á hverju ári lista yfir tegundir sem eru í útrýmingarhættu, mismikilli þó. 16.119 tegundir njóta þessa vafasama heiðurs og hefur þeim fjölgað lítillega frá síðasta ári. Að mati samtakanna er samt augljóst mynstur í gangi: fjölbreytni í dýra- og plöntulífi er á undanhaldi þrátt fyrir aðgerðir alþjóðasamfélagsins. Hvítabirni er nú í fyrsta sinn sagðir "í hættu" og er ástæðan ekki ofveiði heldur hlýnun jarðar. Bráðnun íshellunnar á Norðurskautinu þýðir að mjög hefur saxast á búsvæði sjálfra bjarnanna og dýranna sem þeir veiða sér til matar. Flóðhestar rata sömuleiðis inn á listann í fyrsta sinn, aðallega vegna hruns stofnsins í Kongó þar sem veiðiþjófar hafa í skjóli stríðsátaka drepið skepnurnar unnvörpum.

Það er hins vegar ekki bara í fjarlægum löndum þar sem sótt er að dýrunum. Hákarlastofnar hafa látið mjög á sjá og skatan sem Íslendingar háma í sig á Þorláksmessu er í mikilli útrýmingarhættu.

Sem betur fer ekki eintómur bölmóður í skýrslunni. Vegna verndaraðgerða hefur haförninn verið færður úr flokki dýra í hættu í flokk dýra sem litlar áhyggjur þarf að hafa af.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×