Erlent

Hungur er hlutskipti 146 milljóna barna

Heimsbyggðin hefur brugðist börnum jarðar með því að tryggja þeim ekki nægan mat, segir í nýrri skýrslu Barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna. 146 milljónir barna um víða veröld búa við sult og seyru.

Myndin sem dregin er upp í þessari nýju skýrslu Unicef er dökk því þar kemur fram að ríflega fjórðungur allra barna undir fimm ára aldri í þróunarlöndunum þjáist af vannæringu. Þau eru 146 milljónir eða hér um bil jafnmörg og íbúar Rússlands. Í svonefndum þúsaldarmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna er stefnt að því að útrýma sárri fátækt og hungri í heiminum fyrir árið 2015 en þegar litið er til þess að árið 1990 liðu 32 prósent barna skort er ljóst að enn er langt í land. Ástandið er verst í sunnanverðri Asíu, til dæmis er talið er að annað hvert barn á Indlandi sé vel undir kjörþyngd. Í Austur-Asíu og Eyjaálfu er staðan líka slæm og sem fyrr er hagur afrískra barna bágborinn. Þessu komst Kjell Magne Bondevik, fyrrverandi forsætisráðherra Noregs og erindreki Sameinuðu þjóðanna að á ferð sinni um Sómalíu og fleiri lönd um helgina en þar hafa miklir þurrkar valdið ítrekuðum uppskerubresti. Íbúar svæðsins verða sumir hverjir að ganga tugi kílómetra til að komast í vatn og sulturinn er óhjákvæmilegur hluti lífsins.

Til að gera illt verra ríkir algert upplausnarástand í Sómalíu og ríkisstjórn landsins ræður aðeins yfir litlum hluta þess. Því er dreifing hjálpargagna erfiðleikum bundin og átján milljónir Sómala líða þannig skort.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×