Sport

Vill fá tækifæri hjá Ferguson

Guiseppe Rossi er að reyna að brjótast inn í leikmannahóp Manchester United
Guiseppe Rossi er að reyna að brjótast inn í leikmannahóp Manchester United AFP

Framherjinn ungi Guiseppe Rossi hjá Manchester United hefur farið þess á leit við Sir Alex Ferguson að fá tækifæri með aðalliði félagsins næsta vetur, en þó er ekki loku fyrir það skotið að hann verði lánaður í nokkra mánuði.

Rossi er af ítölskum og bandarískum ættum og hefur vakið mikla athygli fyrir ótrúlega markaskorun með varaliði Manchester United. Hann skrifaði nýverið undir nýjan samning sem gildir til ársins 2010.

"Ef ég ætti að velja milli Manchester United eða einhverra af hinum liðunum í úrvalsdeildinni, yrði ég ekki lengi að velja United. Það væri eflaust allt í lagi að fara eitthvað sem lánsmaður, en ég vil heldur vera hérna og berjast fyrir sæti mínu," sagði Rossi, sem fékk að spreyta sig í síðsta leik liðsins á síðustu leiktíð.

Rossi er fæddur í Bandaríkjunum en flutti 12 ára gamall til Ítalíu. Bandaríska landsliðið hafði samband við hann fyrir HM og bauð honum að reyna sig með liðinu, en Rossi hafnaði. Hann segist hafa átt sér þann draum heitastan síðan hann var lítill drengur að spila með ítalska landsliðinu og er staðráðinn í að láta hann rætast í framtíðinnni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×