Enski boltinn

Setur stefnuna á 90 stig

Sir Alex ætlar sér og liði sínu stóra hluti í vetur
Sir Alex ætlar sér og liði sínu stóra hluti í vetur NordicPhotos/GettyImages

Alex Ferguson hefur sett stefnuna á að ná í 90 stig í ensku úrvalsdeildinni í vetur og segir þann mikla stigafjölda líklega vera nauðsynlegan til að vinna deildina. Manchester United hefur ekki unnið titilinn í þrjú ár, en Ferguson og félagar setja stefnuna hátt í ár.

"Við stefnum á að ná í 90 stig sem er mikil bjartsýni, en menn þurfa einfaldlega að krækja í svo mörg stig til að vinna deildina núorðið. Það er ekki einu sinni víst að 90 stig sé nóg, en hvert einasta stig er vitanlega gríðarlega mikilvægt í svona harðri keppni," sagði Ferguson.

Manchester United hefur byrjað leiktíðina vel á Englandi og tekur á móti Liverpool í stórleik helgarinnar á sunnudaginn. Ferguson vísar því á bug að Liverpool sé úr leik í baráttunni um meistaratitilinn. "Það er stutt síðan menn voru búnir að afskrifa Arsenal, en þá tók liðið góða rispu, svo nú eru menn farnir að efast um Liverpool. Það er þvættingur að halda því fram svo snemma á tímabilinu og það er ekki fyrr en í janúar sem menn geta gefið sér góða hugmynd um það hvaða lið verða í baráttunni," sagði Ferguson.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×