Innlent

Dorrit verður Íslendingur

Dorrit Moussaieff, eiginkona Ólafs Ragnars Grímssonar, forseta Íslands, verður íslenskur ríkisborgari næstkomandi mánudag, hinn 31. júlí. Umsókn hennar hefur verið afgreidd úr dómsmálaráðuneytinu og mun taka gildi á mánudaginn. Þetta staðfestir Þorsteinn Geirsson, ráðuneytisstjóri dóms- og kirkjumálaráðuneytisins.

„Þetta er spurning um tímann frá því að hún skráir lögheimili sitt á Íslandi þar til hún fær ríkisborgararétt. Þess vegna þarf að bíða fram á mánudag,“ segir Þorsteinn. Meðmælendur Dorritar voru meðal annarra Karl Sigurbjörnsson biskup og Rannveig Rist, forstjóri Alcan.

Dorrit og Ólafur hafa átt vingott frá því laust fyrir aldamót, en þau gengu í hjónaband vorið 2003.

Dorrit hefur unnið hug og hjörtu íslensku þjóðarinnar síðan hún hóf að heimsækja landið reglulega. Hún hefur einnig verið kölluð Norræna stjarnan af þekktum erlendum tískutímaritum.

Dorrit fæddist í Jerúsalem í Ísrael en bjó lengst af ævi sinnar í Bretlandi þar sem fjölskylda hennar rekur stóra keðju skartgripaverslana. Dorrit er ekki fyrsta eiginkona íslensks forseta sem er af erlendu bergi brotin því Sveinn Björnsson, fyrsti forseti Íslands, átti danska eiginkonu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×