Enski boltinn

Ívar og Brynjar framlengja við Reading

NordicPhotos/GettyImages

Íslensku landsliðsmennirnir Ívar Ingimarsson og Brynjar Björn Gunnarsson hafa framlengt samninga sína við enska úrvalsdeildarfélagið Reading. Ívar framlengdi samning sinn við félagið til ársins 2009 og Brynjar Björn til ársins 2008.

Ívar hefur verið 142 sinnum í byrjunarliði Reading síðan hann gekk í raðir félagsins frá Wolves árið 2003 og hefur skorað 8 mörk á þeim tíma. Bryjar Björn gekk í raðir Reading árið 2005 eftir að hafa verið hjá Watford.

Nick Hammond, yfirmaður knattspyrnumála hjá Reading, var ánægður að tryggja félaginu undirskrift íslensku leikmannanna. "Ívar og Brynjar eru báðir atvinnumenn fram í fingurgóma og eru menn sem endurspegla allt sem Reading stendur fyrir á knattspyrnuvellinum. Þeir hafa látið mikið að sér kveða síðan þeir komu hingað og við hjá Reading erum í skýjunum yfir því að þeir hafi ákveðið að skrifa undir nýja samninga.

"Þessi samningur sýnir mér að félagið hefur trú á mér og ég er þakklátur fyrir það - því ég held að ég hafi það sem til þarf til að spila í ensku úrvalsdeildinni," sagði Ívar í samtali við heimasíðu Reading og Brynjar Björn tók í sama streng.

"Ég er mjög ánægður með að fá nýjan samning og hlakka til þess að spila með liðinu í eitt og hálft ár í viðbót. Við erum enn að bæta okkur frá síðustu leiktíð og við sýndum það í leiknum gegn Tottenham um síðustu helgi að við getum keppt við þá bestu í þessari deild," sagði Brynjar Björn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×