Enski boltinn

Darren Bent í landsliðið í stað Andy Johnson

Darren Bent fær tækifæri með enska landsliðinu í fjarveru Andy Johnson
Darren Bent fær tækifæri með enska landsliðinu í fjarveru Andy Johnson NordicPhotos/GettyImages

Framherjinn ungi Darren Bent hefur verið kallaður inn í enska landsliðshópinn í stað Andy Johnson hjá Everton, eftir að sá síðarnefndi þurfti að draga sig úr hópnum vegna meiðsla sem hann varð fyrir á lokamínútum leiksins gegn Manchester City á laugardag.

Þetta er nokkuð áfall fyrir Andy Johnson sem var að nýju valinn í landsliðið eftir nokkra fjarveru, en hann hefur verið heitasti framherji ensku úrvalsdeildarinnar það sem af er og er markahæstur með 6 mörk. Hann er nú meiddur á læri og missir því af leikjunum við Makedóníu og Króatíu.

"Þetta kemur sér illa fyrir Andy því hann hefur barið mjög fast á landsliðsdyrnar að undanförnu með mjög góðri frammistöðu. Við vorum þó heppnir að geta kallað á Darren úr U-21 árs liðinu og hann hefur þegar öðlast smá reynslu með aðalliðinu. Hann er alltaf ógn við mark andstæðinganna," sagði Steve McClaren, landsliðsþjálfari Englendinga.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×