Sport

Eigum skilið að komast í Meistaradeildina

Martin Jol og félaga í Tottenham bíður sannkallaður risaleikur á laugardaginn þar sem andstæðingurinn er erkióvinurinn Arsenal og meistaradeildarsæti í húfi
Martin Jol og félaga í Tottenham bíður sannkallaður risaleikur á laugardaginn þar sem andstæðingurinn er erkióvinurinn Arsenal og meistaradeildarsæti í húfi NordicPhotos/GettyImages

Martin Jol, stjóri Tottenham, undirbýr lið sitt nú fyrir mikilvægasta leik þess á síðustu árum. Tottenham sækir granna sína í Arsenal heim á Highbury á laugardaginn í leik sem mun ráða miklu um hvort liðið hafnar í fjórða sæti deildarinnar og kemst í Meistaradeildina á næsta tímabili.

Mjög langt er síðan Tottenham hefur verið svo lengi fyrir ofan erkifjendur sína í Norður-Lundúnum og það er vel við hæfi að grannarnir berjist um Evrópusætið í síðustu viðureign sinni á Highbury. Martin Jol segir sína menn ekki kvíða neinu.

"Við munum spila okkar bolta og hlökkum til þess að takast á við þessa miklu áskorun. Það yrði okkur gríðarlega mikilvægt að ná hagstæðum úrslitum í þessum leik, því ef við náum að halda Arsenal fyrir aftan okkur í deildinni og halda fjórða sætinu - er það vegna þess að við eigum það skilið," sagði Jol, en Tottenham hefur haldið fjórða sætinu í nokkrar vikur. Liðið á þó mjög erfiða leiki eftir á lokasprettinum og því verður sannarlega forvitnilegt að fylgjast með hvernig ungu liði Martin Jol tekst til í síðustu þremur leikjunum.

Þess má geta að varnarmaðurinn Sol Campbell verður ekki í leikmannahópi Arsenal fyrir leikinn á laugardaginn, en hann er ekki orðinn nógu góður eftir nefbrotið á dögunum. Þó er vonast til að hann verði orðinn klár fyrir síðari leikinn gegn Villarreal í Meistaradeildinni á þriðjudaginn. Campbell sjálfur grætur þó varla að missa af leiknum gegn sínum gömlu félögum í Tottenham, því stuðningsmenn liðsins hafa gert honum lífið einstaklega leitt allar götur síðan hann kaus að ganga til liðs við Arsenal á sínum tíma.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×