Enski boltinn

Kuyt er frábær liðsmaður

Dirk Kuyt er sjóðandi heitur um þessar mundir.
Dirk Kuyt er sjóðandi heitur um þessar mundir. Getty Images

Hollenski framherjinn Dirk Kuyt fékk mikið hrós frá stjóra sínum, Rafael Benitez, eftir leikinn gegn Reading í dag. Liverpool vann 2-0 og skoraði Kuyt bæði mörkin.

"Hann er gríðarlega vinnusamur leikmaður sem leggur sig allan fram og berst fyrir liðið. Hann skapar pláss fyrir aðra með hreyfanleika sínum og samstarf hans við Peter Crouch í framlínunni er að virka vel. Fyrir utan þetta þá er hann að skora mörk. Hann er einfaldlega frábær liðsmaður," sagði Benitez, hæstaánægður með sinn mann, en Kuyt hefur nú skorað fimm mörk á tímabilinu.

Liverpool er komið upp í 7. sæti deildarinnar og er það helst frábærum árangri liðsins á heimavelli að þakka. Þar hefur liðið ekki tapað í síðustu 22 deildarleikjum. "Við verðum að finna þetta form á útivöllum til að halda okkur inn í baráttunni um efstu sætin. Við erum í framför og ég er sannfærður um að við munum hala inn fleiri stigum í næstu leikjum," bætti Benitez við.

Eftir góða byrjun á leiktíðinni hefur Reading nú tapað fjórum leikjum í röð í deildinni og sígur liðið hægt og bítandi niður töfluna. Steve Coppell, stjóri liðsins, segir lið sitt þó ekki vera búið að gefa upp öndina. "Í þessum fjórum leikjum höfum við meðal annars mætt Arsenal, Chelsea og nú Liverpool. Þetta eru gæðalið og við sem nýliðar eigum erfitt uppdráttar gegn svona góðum leikmönnum. En ég hef trú á mínum mönnum og veit að við eigum eftir að finna formið á ný."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×