Greta Mjöll Samúelsdóttir var brosmild eftir sigurinn gegn Frakklandi í gær. „Ég er í nettu sjokki, þetta er eitt besta afrek sem Ísland hefur unnið og ég held að við séum að skrá okkur í sögubækurnar," sagði Greta Mjöll.
„Við spiluðum rosalega rétt gegn þessum stelpum. Þær sóttu á okkur eins og við vildum að þær gerðu á meðan við fengum nokkrar góðar skyndisóknir. Þetta var erfitt, þær spiluðu mikið upp kantana og við kantmennirnir hlupum mjög mikið. Við erum eiginlega allar búnar en þegar allt liðið leggur sig svona fram er ekki skrýtið að við náum hagstæðum úrslitum," sagði Blikastúlkan sem er bjartsýn á framhaldið.
„Þetta gefur okkur kraft fyrir framhaldið. Þetta var stórt skref í rétta átt, þriðja skrefið kemur svo á fimmtudaginn og við tökum þetta bara leik fyrir leik," sagði Greta.
Margrét Lára Viðarsdóttir á heiðurinn að íslenska markinu, hvort sem það er skráð á hana eða ekki. „Ég vona að ég eigi þetta mark en mestu máli skiptir að þetta var gríðarlega flottur sigur hjá okkur. Það er erfitt að ná sér niður eftir svona leik en við verðum að gera það," sagði Margrét Lára.
„Það gekk nánast allt upp. Þær fengu nokkur færi en við erum með frábæran markmann sem tekur alla þessa bolta. Við hefðum getað nýtt okkar færi betur en 1-0 er alveg nóg," sagði markaskorarinn Margrét Lára.