Viðskipti innlent

Nýsköpunarsjóður fjárfestir í Mentor

Skrifað var undir samningana í sendiráði Íslands í Kaupmannahöfn.
Skrifað var undir samningana í sendiráði Íslands í Kaupmannahöfn.

Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins hefur ákveðið að fjárfesta í þekkingarfyrirtækinu Mentor ehf sem sérhæfir sig í lausnum til að ná markvissari árangri í skólastarfi. Hlutur sjóðsins verður 20 prósent af heildarhlutafé og mun innkoma hans styrkja stoðir Mentor og opna félaginu nýja möguleika, að því er segir í tilkynningu. Fjármagnið sem Mentor aflar með hlutafjáraukningunni verður nýtt til að efla sókn á erlenda markaði og til áframhaldandi vöruþróunar.

Í gær voru undirritaðir í íslenska sendiráðinu í Kaupmannahöfn samningar um kaup Mentors á sænska fyrirtækinu PODB og aðkomu Nýsköpunarsjóðs að sameinuðu félagi. PODB er eitt af fyrstu fyrirtækjum í Svíþjóð sem sérhæfir sig í upplýsingakerfum sérhönnuðum fyrir kennara með sérstakri áherslu á einstaklingsmiðaðar námsáætlanir og foreldraviðtöl. Árangur kerfisins er umtalsverður og er það nú með 350 leyfissamninga við grunn- og framhaldsskóla í um 100 sveitarfélögum í Svíþjóð. Kaup Mentors á PODB eru að hálfu fjármögnuð með reiðufé og að hálfu með hlutafé í Mentor ehf. Stofnandi og núverandi eigandi PODB mun starfa hjá hinu sameinaða félagi og verður jafnframt meðeigandi í Mentor ehf.

„Þetta er mjög góð leið fyrir okkur til að ná fótfestu og sækja fram á sænska markaðnum. Við getum nú boðið enn betri lausnir fyrir einstaklingsmiðað nám sem verið er að leggja aukna áherslu á í mörgum Evrópulöndum. Ísland er lítill markaður en hann er hins vegar kröfuharður markaður sem hefur gefið okkur tækifæri til að mæta gæðakröfum og þróa okkar lausnir í samstarfi við íslenska kennara og skólastjórnendur á annan áratug. Nú er komið að því að sækja fram á erlendum mörkuðum með okkar lausnir og fagna ég því sérstaklega að Nýsköpunarsjóður komi til liðs við okkur í því ferli", segir Vilborg Einarsdóttir framkvæmdastjóri Mentors ehf.

„Ég tel að hið sameinaða félag Mentor/ PODB hafi á að skipa mjög öflugum starfsmönnum sem hafi alla burði til að byggja upp félag sem verði í hópi leiðandi fyrirtækja á sínu sviði á Norðurlöndum og að félagið hafi möguleika til enn frekari vaxtar á öðrum mörkuðum þegar fram líða stundir" segir Finnbogi Jónsson, framkvæmdastjóri Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins. Gert er ráð fyrir að Nýsköpunarsjóður verði virkur þátttakandi í að þróa Mentor næstu 5 árin.

Stjórnarformaður hins sameinaða félags verður Ásta Dís Óladóttir, dósent við Háskólann á Bifröst og framkvæmdastjóri verður Vilborg Einarsdóttir. Heildarfjöldi starfsmanna er 17 í dag og heildarvelta á þessu ári er áætluð 140 milljónir króna.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×