Innlent

Brunabíla-Ragnar í vandræðum vegna raðhúsalengju

Bareigandinn og bíladellukarlinn Ragnar Ólafur Magnússon sést hér við hlið Dodge Charger-bifreiðar sinnar. Þessi bíll brann til kaldra kola í Vogunum á sunnudag.
Bareigandinn og bíladellukarlinn Ragnar Ólafur Magnússon sést hér við hlið Dodge Charger-bifreiðar sinnar. Þessi bíll brann til kaldra kola í Vogunum á sunnudag. MYND/ANTON BRINK

Bareigandinn Ragnar Ólafur Magnússon, sem átti bílana tíu sem brunnu í Vogum á sunnudagsmorgun, gæti átt á hættu að missa barina Café Oliver, Barinn og Q-bar, sem hann keypti í sumar fyrir rúmar 200 milljónir. Ástæðan er sú að hann er í vandræðum með að uppfylla kaupsamning vegna Café Oliver.

Í kaupsamningnum vegna kaupanna á Café Oliver skuldbatt Ragnar sig til að greiða tugmilljóna hluta af verðinu með eignarhluta í 11 raðhúsum í Laxatungu í Mosfellsbæ. Nú er staðan hins vegar þannig að Ragnar hefur misst húsin í hendur þess sem byggði þau vegna þess að hann gat ekki staðið skil á greiðslum. Þegar hefur verið rift samningi á sex húsum af sautján, það er þeim sem eru fokheld. Kaupsamningnum hinna húsanna ellefu verður síðan rift þegar þau eru orðin fokheld.

Bjarni Tómasson verktaki, sem byggir raðhúsin við Laxatungu, staðfesti í samtali við Vísi að þetta væri raunin. "Fyrst stóð Ragnar við allt sitt en þegar húsin voru fokheld þá gat hann ekki borgað umsamda greiðslu. Það var því ekkert annað í stöðunni en að rifta samningnum. Það er synd því Ragnar er góður drengur," segir Bjarni.

Þessi staða gerir það að verkum að Ragnar þarf að finna aðrar leiðir til að standa við kaupsamninginn varðandi Cafe Oliver. Um er að ræða verulegar fjárhæðir sem hlaupa á tugum milljóna samkvæmt heimildum. Ekki náðist í Ragnar við vinnslu þessarar fréttar þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir né heldur fyrrum eigendur Oliver.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×