Handbolti

GOG nálgast toppsætið í Danmörku

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Snorri Steinn Guðjónsson skoraði fjögur mörk fyrir GOG í gær.
Snorri Steinn Guðjónsson skoraði fjögur mörk fyrir GOG í gær. Nordic Photos / Bongarts

Heil umferð fór fram í dönsku úrvalsdeildinni í handbolta í gær og nálgaðist Íslendingaliðið GOG toppinn eftir leiki gærkvöldsins.

GOG vann góðan útisigur á Nordsjælland, 42-35, eftir að hafa leitt með fjórum mörkum í hálfleik. Snorri Steinn Guðjónsson skoraði fjögur mörk fyrir GOG í leiknum og Ásgeir Örn Hallgrímsson þrjú.

Topplið FCK missteig sig í gær og gerði jafntefli við Team Tvis Holstebro. Arnór Atlason er kominn aftur á fullt eftir að hafa jafnað sig á meiðslum og skoraði sex mörk í leiknum í gær.

Skjern og Århus GF töpuðu einnig dýrmætum stigum í gær er liðin gerðu jafntefli, 32-32. Vignir Svavarsson skoraði tvö mörk fyrir Skjern en Sturla Ásgeirsson skoraði fjögur fyrir AGF.

Skjern er í áttunda sæti deildarinnar, AGF í því sjöunda og Fredericia í fimmta sæti. Fredericia vann í gær tveggja marka sigur á Mors-Thy á útivelli, 20-18. Hannes Jón Jónsson skoraði fjögur mörk fyrir Fredericia og Gísli Kristjánsson eitt. Fannar Þorbjörnsson komst ekki á blað hjá liðinu.

TMS Ringsted er í næstneðsta sæti deildarinnar með þrjú stig og tapaði í gær fyrir AaB, 36-24. Þorri Gunnarsson skoraði þrjú mörk fyrir TMS.

FCK og Bjerringbro-Silkeborg eru á toppi deildarinnar með átján stig og GOG er í því þriðja með sautján. Team Tvis og Kolding koma næst með sextán stig.

Bjerringbro-Silkeborg vann í gær auðveldan sigur á botnliði Skanderborg, 36-28, og Kolding vann sigur á Viborg á útivelli, 33-25.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×