Wayne Rooney sá um að tryggja Man. Utd. sæti í 16-liða úrslitum ensku bikarkeppninnar með því að skora bæði mörk liðsins í 2-1 sigri á Portsmouth. Það tók Man. Utd. langan tíma að brjóta ísinn á Old Trafford í kvöld því mörk Rooney komu ekki fyrr en á 77. og 83. mínútu, en sjálfur kom hann inn á sem varamaður á þeirri 60.
Kanu minnkaði muninn fyrir gestina á 87. mínútu með skoti utan teigs sem hafði viðkomu í varnarmann, en lengra komust þeir ekki. Mörk Rooney voru einstaklega glæsileg - sérstaklega það síðara, þar sem hann vippaði yfir David James í marki Portsmouth af löngu færi.