Innlent

Arnarfell ræður til sín starfsmenn Hunnebeck Polska

Gissur Pétursson, forstjóri Vinnumálastofnunar.
Gissur Pétursson, forstjóri Vinnumálastofnunar. MYND/365

Verktakafyrirtækið Arnarfell mun ábyrgjast réttindi þeirra erlendu starfsmanna sem vinna hjá undirverktökum við byggingu Hraunaveitu Kárahnjúkavirkjunar samkvæmt samkomulagi fyrirtækisins við Vinnumálastofnun. Þá mun Arnarfell ráða til sín beint þá starfsmenn sem nú starfa hjá Hunnebeck Polska. Samkomulagið varð til þess að fallið var frá fyrirhugaðri vinnustöðvun við Hraunaveitu Kárahnjúkavirkjunar í dag.

„Það sem skiptir máli er að nú er tryggt að íslenskir kjarasamingar verða virtir og erlendir verkamenn bera ekki skarðan hlut frá borði," sagði Gissur Pétursson, forstjóri Vinnumálastofnunar, í samtali við Vísi.

Fulltrúar frá Vinnumálastofnun og lögreglu fóru að Hraunaveitu Kárahnjúkavirkjunar í morgun til að stöðva vinnu hjá undirverktökum Arnarfells, Hunnebeck Polska og GT verktaka. Áður en til vinnustöðvunar kom var gert samkomulag milli Vinnumálastofnunar og Arnarfells.

Að sögn Gissurar kveður samkomulagið meðal annars á um að Arnarfell ábyrgist að leggja fram öll umbeðin gögn. Þá mun Vinnumálastofnun í samstarfi við verkalýðsfélög standa fyrir könnun varðandi laun þeirra 60 erlendu starfsmanna sem málið snýst um. Hefur Arnarfell ennfremur ábyrgst að greiða mismun launa í samræmi við íslenska kjarasamninga. Könnuninni á að vera lokið þann 20. september næstkomandi.

Gissur segist ekki hafa trú á öðru en að Arnarfell muni standa við sinn hluta samningsins og að ekki komi til vinnustöðvunar. „Ég hef ekki trú á öðru en að fyrirtækin undirgangist það sem ábyrgst var og vinna haldi áfram."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×