Enski boltinn

West Ham tapaði 6-0

Brynjar Björn Gunnarsson sést hér í eldlínunni í leiknum gegn West Ham í dag. Brynjar átti mjög góðan leik í stöðu hægri bakvarðar.
Brynjar Björn Gunnarsson sést hér í eldlínunni í leiknum gegn West Ham í dag. Brynjar átti mjög góðan leik í stöðu hægri bakvarðar. MYND/Getty

Eigendurnir Eggert Magnússon og Björgólfur Guðmundsson og knattspyrnustjórinn Alan Curbishley voru þungir á brún þegar sjónvarpsmyndavélar beindu sjónum sínum að þeim eftir viðureign West Ham og Reading. West Ham fékk háðuglega útreið og tapaði 6-0.

Leikmenn Reading léku við hvern sinn fingur í leiknum og gjörsamlega gengu frá gestunum úr West Ham. Staðan í hálfleik var 4-0, eins og áður hafði komið fram hér á Vísi, en í síðari hálfleik bættu Leroy Lita og Kevin Doyle við mörkum. Brynjar Björn Gunnarsson skoraði fyrsta mark Reading og lék allan leikinn, rétt eins og Ívar Ingimarsson sem auk þess var fyrirliði liðsins í leiknum.

West Ham er sem fyrr í 18. og þriðja neðsta sæti deildarinnar en er með tapinu komið með lélegustu markatölu allra liða í deildinni.

Blackburn komst upp í 11. sæti deildarinnar með góðum 3-0 útisigri á Wigan. Portsmouth og Tottenham skildu jöfn, 1-1, Manchester City lagði Everton á heimavelli sínum, 2-1, og þá hafði Middlesbrough betur gegn nýliðum Sheffield United, 3-1.

Heiðar Helguson lék allan leikinn fyrir Fulham sem gerði markalaust jafntefli við Watford á heimavelli. Tvö mörk voru dæmd af Heiðari í leiknum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×