Enski boltinn

Mourinho sagður hafa falið sig í þvottakörfu

NordicPhotos/GettyImages

Tvö bresk blöð halda því fram í dag að Jose Mourinho, stjóri Chelsea, hafi notað mjög óhefðbundnar aðferðir til að koma skilaboðum til sinna manna þegar hann var í leikbanni í Meistaradeildinni fyrir tveimur árum. Hann fékk þá tveggja leikja bann fyrir framkomu sína á leik gegn Barcelona.

Daily Mail segir að Mourinho, sem var í banni og mátti ekki koma nálægt liði sínu í leikjunum gegn Bayern Munchen, hafi falið sig í þvottakörfu undir búninga liðsins og þannig komist óséður til búningsherbergja. Hann á þannig að hafa horft á leikinn í búningsherbergi Chelsea og blöðin greindu frá því á sínum tíma að aðstoðarmaður hans Rui Faria hafi verið með símabúnað undir ullarhatti sínum til að koma skilaboðum áleiðis til stjórans. Eftir að leikurinn var svo flautaður af - er Mourinho sagður hafa skriðið aftur ofan í þvottakörfuna og þannig hafi honum verið laumað af vettvangi á ný.

Forráðamenn Chelsea hafa vísað þessari sögu til föðurhúsanna, en The Times hefur fullyrt að UEFA hafi ekki geta rannsakað málið nú vegna þess hve langt er síðan meint atvik átti sér stað.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×