Handbolti

Snorri orðaður við GOG og Celje Lasko

Snorri Steinn á ferðinni gegn Frökkum á HM í Þýskalandi.
Snorri Steinn á ferðinni gegn Frökkum á HM í Þýskalandi. MYND/Pjetur

Leikstjórnandi íslenska landsliðsins í handbolta, Snorri Steinn Guðjónsson, er nú orðaður við danska hanboltaliðið GOG Gudme og slóvenska stórliðið Celje Pivorna Lasko.

Frammistaða Snorra Steins Guðjónssonar á nýafstöðnu heimsmeistaramóti í handbolta hefur sannarlega vakið athygli. Danskir fjölmiðlar greindu frá því í gær að danska liðið GOG væri með Snorra í sigtinu. Honum er ætlað að taka við leikstjórnandastöðunni af Thomas Mogensen sem fer til Flensborg í Þýskalandi á næstu leiktíð. Snorri segir í samtali við Morgunblaðið í dag að ýmsar þreifingar séu í gangi.

Snorri Steinn skoraði 15 mörk í leiknum fræga við Dani í 8-liða úrslitum og sú framganga var ekki til að draga úr áhuga danska liðsins. Samningur Snorra Steins við Minden í Þýskalandi rennur út í sumar og Danska Extrabladet segir að hann vilji helst fara til Danmerkur.

GOG er í 3. sæti dönsku deildarinnar á eftir FCK í Kaupmannahöfn og Kolding. Samingsstaða Snorra ætti að vera góð eftir framgang hans á HM og vitað er af áhuga fleiri liða. Þannig hefur eitt besta handboltalið Evrópu, Celje Pivorna Lasko, spurst fyrir um landsliðsmanninn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×