Skoðun

Kjaramál kennara ekki mál ríkisstjórnar?

Fréttir bárust af því að stjórnarandstaðan hefði á Alþingi þann 14. febrúar reynt að fá svör frá ríkisstjórninni hvort hún hygðist beita sér eða gera eitthvað í kjaramálum kennara. Björgvin G. Sigurðsson benti á að undiralda væri meðal kennara í grunnskólum enda ekki verið að koma til móts við þá samkvæmt kjarasamningi.

Svörin voru skýr. Nei, þetta kemur okkur ekki við, þetta eru málefni sveitarfélaganna og launanefndar þeirra. Hæstvirtur forsætisráðherra Geir H. Haarde svaraði að því er mér fannst með hroka og bar ekki mikla virðingu fyrir þingmönnum sem léðu máls á því að um sinnuleysi af hálfu stjórnvalda væri að ræða.

Ég vil benda kennurum á að það eru kosningar í vor. Þá göngum við að kjörklefunum og kjósum okkur nýja ríkisstjórn. Hvort það verði áfram ríkisstjórn framsóknar og sjálfstæðismanna skal ósagt látið. Það hlýtur hver heilvita maður að sjá, eins og segir í texta Greifanna, að þessi mál okkar kennara koma ríkisstjórninni við. Menntamálaráðherra er æðsti yfirmaður menntamála, og eins og alþjóð veit fylgdi alltof lítið fé til sveitarfélaganna þegar grunnskólarnir voru fluttir þangað.

Klárlega eru sveitarfélögin viðsemjendur grunnskólakennara, og víst er að þau hafa launanefnd sveitarfélaganna sem hlífðarskjöld og hver sveitarstjórnarmaðurinn á fætur öðrum ber við að þetta sé ekki í þeirra höndum því launanefndin fari með umboðið.

Gleymum ekki að í nóvember 2004 þegar kennarar voru búnir að vera í löngu og ströngu verkfalli þá kom háttvirt ríkisstjórnin og var tilbúin að skera sveitarfélögin úr snörunni sem þau höfðu komið sér í. Þá voru sett lög á verkfall kennara.

Það er sama ríkisstjórnin sem þá gat komið að málefnum grunnskólakennara og getur það ekki núna, því eins og allir vita þá eru launamál grunnskólakennara málefni sveitarfélaganna og launanefndar þeirra.

Höfundur er grunnskólakennari.




Skoðun

Sjá meira


×