Erlent

Stórstjörnur stigu á stokk

Guðjón Helgason skrifar

Stórstjörnur hafa stigið á stokk í öllum álfum í dag til að vekja athygli á þeirri hættu sem steðjar að heiminum vegna loftslagsbreytinga. Live Earth tónleikar vour haldnir í níu stórborgum til styrktar umhverfinu.

Al Gore, fyrrverandi varaforseti Bandaríkjanna, skipulagði tónleikana sem byggja að hluta á Live Aid tónleikunum á sínum tíma. Hann birtist óvænt á sviði í Tokyo í nótt fyrir tilstilli nýjustu tækni. Notast var við heilmyndatækni.

Gore sagði tíma til kominn að græða sár Jarðarinnar. Hlýnun jarðar væri það erfðiasta sem íbúar Jarðar hefðu tekist á við en vandamálið væri hægt að leysa. Virkja þyrfti nágranna, fyrirtæki og stjórnvöld í til aðgerða en tilgangur tónleikanna er einmitt að vekja fólk til umhugsunar.

Rokkað var í Sydney í Ástralíu, Tokyo í Japan, í Jóhannesarborg í Suður Afríku, Hamborg í Þýskalandi, á Wembley leikvanginum í Lundúnum, Washington og New Jersey í Bandaríkjunum og Ríó í Brasilíu.

Fjölmargir og ólíkir tónlistarmenn tóku þátt. Þar má nefna Madonnu, Black Eyed Peas, Metallicu og Duran Duran. Sem dæmi steig Phil Collins á stokk með hljómsveit sinni Genesis á Wembley og Shakira fékk fólk til að hrista sig í Hamborg.

Fyrir utan borgirnar níu sem auglýstar voru var tónlistin í hávegum höfð á Suðurskatslandinu þar sem vísindamenn segja að fyrstu afdrifaríkustu breytingarnar vegna hlýnun jarðar hafi orðið. Vísindanemar slógu þar á létta strengi og stofnuðu hljómsveitina Nunatak.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×