Enski boltinn

Mourinho verðleggur Cech á 50 milljónir punda

Svona lítur Peter Cech út á æfingum í dag - með veglegan höfuðbúnað til að verja höfuðkúpuna sem brákaðist svo illa í samstuði við Stephen Hunt, leikmann Reading, í oktober sl.
Svona lítur Peter Cech út á æfingum í dag - með veglegan höfuðbúnað til að verja höfuðkúpuna sem brákaðist svo illa í samstuði við Stephen Hunt, leikmann Reading, í oktober sl.

Jose Mourinho, stjóri Chelsea, sagði eftir sigur sinna manna á Wigan í dag að markvörðurinn Peter Cech væri búinn að fá grænt ljós á að hefja æfingar að fullum krafti. Mourinho sagði Cech vera besta markvörð í heimi og smellti í leiðinni 50 milljón punda verðmiða á Tékkann stóra og stæðilega.

"Á mánudag fæ ég 50 milljón punda manninn minn aftur á æfingu. Eftir þriggja mánaða legu er hann tilbúinn að snúa aftur," sagði Mourinho við enska fjölmiðla eftir leikinn.

"Ég er ekki að segja að hann muni spila gegn Liverpool um næstu helgi en hann er búinn að ná sér. Besti markvörður í heimi er tilbúinn að spila," sagði Mourinho, en Cech hefur verið sárt saknað undanfarnar vikur og mánuði eftir að hafa brákað á sér höfuðkúpuna í leik gegn Reading í október sl.

Áhorfendur á Stamford Bridge sungu nafn Mourinho hástöfum í leiknum gegn Wigan í dag og undirstrikuðu þannig stuðning sinn við þjálfarann í meintri deilu hans við stjórnendur félagsins. Mourinho kvaðst hrærður yfir viðtökunum en bætti við að hann teldi að málin myndu róast eftir sigurinn í dag.

"Þegar illa gengur hjá félagi er eðlilegt að hamingjan verði illsjáanleg. Við höfðum ekki unnið síðustu leiki og því er eðlilegt að umræðan hafi verið neikvæð. Nú erum við aftur komnir á sigurbraut og þá líður öllum betur," sagði Mourinho.

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×