Enski boltinn

Ekkert miðað við Valencia

Rafael Benitez segir pressuna á Spáni vera miklu meiri en á Englandi.
Rafael Benitez segir pressuna á Spáni vera miklu meiri en á Englandi. MYND/Getty

Rafael Benitez segir að pressan sem hann sé undir sem knattspyrnustjóri Liverpool sé ekkert miðað við þá sem hann þurfti að þola þegar hann var við stjórnvölinn hjá Valencia á Spáni. Benitez hefur verið sagður valtur í sessi hjá Liverpool eftir tvö slæm töp gegn Arsenal fyrr í mánuðinum.

Gengi Liverpool í deildinni hefur engu að síður verið mjög gott síðustu vikur og var sigurinn gegn Watford á laugardag sá sjöundi í síðustu átta leikjum í deildinni. Liðið er sem stendur í 3. sæti, sem gefur sæti í Meistaradeild Evrópu.

“Ég held að ég sé frekar ungur af knattspyrnustjóra að vera en ég hef mikla reynslu af því að vera í erfiðri stöðu. Ég hef alltaf sagt að á eftir sunnudegi kemur mánudagur,” sagði Benitez léttur á því, aðspurður um pressuna í starfi sínu hjá Liverpool.

“Þegar ég var hjá Valencia höfðum við eitt sinn spilað 13 leiki í röð án taps og framundan var útileikur gegn Espanyol. Og það var umtalað að ef við töpuðum þeim leik yrði ég í vandræðum. Við unnum deildina þetta tímabil með átta stiga mun,” segir Benitez.

“Árið eftir þetta átti ég að verða rekinn vegna þess að ég hefði ekki náð að mynda nægilega sterkan leikmannahóp. Við komumst samt í 8-liða úrslit Meistaradeildarinnar. Svona var þetta á Spáni en ástandið er ekki svona ótrúlega ýkt hér á Englandi. Lykillinn að árangri er að hafa trú á leikmönnum og öðrum starfsmönnum félagsins,” sagði Benitez að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×