Viðskipti innlent

Minni hagnaður hjá Eyri Invest

Fjárfestingafélagið Eyrir Invest skilaði tæplega 1,7 milljarða króna hagnaði í fyrra samanborið við 4,1 milljarðs króna hagnaðar árið 2005. Þetta jafngildir því að að hagnaður félagsins hafi dregist saman um 2,4 milljarða krónur á milli ára.

Í uppgjör Eyris kemur fram að arðsemi eiginfjár hafi numið 17,5 prósentum á milli ára.

Ennfremur segir að hlutabréfamarkaðir á Norðurlöndum voru hagfelldir og náðist góður árangur í almennum fjárfestingum félagsins en 95 prósent af tekjum félagsins í eignasafni Eyris er utan Íslands. Raunvirði stærstu eignarhluta félagsins í Marel og Össuri jókst samfara arðsömum vexti í takt við stefnu félaganna, að því er segir í tilkynningunni.

Heildareignir Eyris í lok síðasta árs námu 26.265 milljónum króna en það er tæp 50 prósenta aukning frá upphafi síðasta árs. Eigið fé í árslok 2006 nam tæpum 12 milljörðum króna samanborið við 9,6 milljarða krónur í lok árs 2005.

Árni Oddur Þórðarson, forstjóri Eyris Invest ehf., segir afkomu félagsins viðunandi. „Árið var mikið umbreytingarár hjá stærstu félögum okkar, Marel og Össuri, sem einkenndist af miklum vexti með yfirtökum og samþættingu rekstrar. Sú vinna sem þegar er hafin í félögunum mun auka raunvirði þeirra umtalsvert á komandi misserum. Horfur framundan eru góðar og markmið Eyris Invest um 20% árlega meðalarðsemi eiginfjár stendur óbreytt," segir hann í tilkynningu.

Uppgjör Eyris Invest






Fleiri fréttir

Sjá meira


×