Enski boltinn

Mikel var neyddur til að spila landsleikinn

John Obi Mikel sést hér ásamt félaga sínum hjá Chelsea, Michael Ballack.
John Obi Mikel sést hér ásamt félaga sínum hjá Chelsea, Michael Ballack. MYND/Getty

Nígeríski miðjumaðurinn hjá Chelsea, John Obi Mikel, kveðst hafa neyðst til að spila fyrir landsliðið sitt sl. þriðjudag þegar Nígería mætti Ghana í vináttuleik. Ástæðan voru hótanir í garð fjölskyldu sinnar sem búsett er í Nígeríu. Jose Mourinho, stjóri Chelsea, hafði bannað Mikel að spila landsleikinn þar sem hann var lítillega meiddur.

Mikel lék allar 90 mínútur leiksins, Mourinho til lítillar ánægju en um síðustu helgi tognaði Mikel lítillega aftan í læri og vildi portúgalski stjórinn að hann fengi undanþágu frá því að spila landsleikinn.

Mikel vonar að Mourinho skilji aðstöðuna sem hann var í. "Stuðningsmenn landsliðsins hótuðu fjölskyldu minni heima öllu illu ef ég spilaði ekki þennan leik. Þessir menn trúa því að ég geri upp á milli leikja landsliðsins og spili eftir eigin hentisemi. Það er ekki rétt. En ég var neyddur til að spila þennan leik," sagði hinn 19 ára gamli Mikel, sem er lykilmaður á miðju nígeríska liðsins.

"Þetta var einfaldlega of mikið álag til að ég gæti höndlað það. Aðeins Guð veit hvað hefði getað komið fyrir fjölskyldu mína hefði ég sleppt því að spila þennan leik."

"Var Jose Mourinho óánægður með að ég skyldi spila? Vissulega. Hann var algjörlega miður sín. En vonandi skilur hann hvað ég gekk ég gegnum," sagði Mikel að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×