Fótbolti

Loksins sigraði Lyon

Meistarar síðustu fimm ára í franska fótboltanum, Lyon, vann sinn fyrsta deildarleik í ár þegar liðið vann Lorient í gær, 1-0. Þrátt fyrir að allt hafi gengið á afturfótunum hjá liðinu að undanförnu er Lyon ennþá með 14 stiga forystu á toppi deildarinnar. Fyrirliði liðsins segir mikilvægt að hafa náð sigri fyrir leikinn gegn Roma í Meistaradeildinni í næstu viku.

“Við spiluðum ekki nægilega vel en það skipti öllu máli að vinna og fá aftur sigurtilfinninguna. Velgengni er góð fyrir sjálfstraustið,” sagði fyrirliðinn Claudio Cacapa, en hann var að leika sinn fyrsta leik síðan í ágúst eftir að hafa verið frá vegna meiðsla.

Það var brasilíski framherjinn Fred sem skoraði mark Lyon í leiknum, við mikla kátínu Jean-Michel Aulas, forseta félagsins. “Mér finnst eins og leikmennirnir séu að komast aftur í gang. Það eru mjög góð tíðindi fyrir leikinn gegn Roma,” sagði Aulas.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×