Körfubolti

Cuban ósáttur við ummæli Wade

Dirk Nowitzki er ekki leiðtogi, að mati Dwayne Wade.
Dirk Nowitzki er ekki leiðtogi, að mati Dwayne Wade. MYND/Getty

Mark Cuban, eigandi Dallas Mavericks í NBA-deildinni, og Avery Johnson, þjálfari liðsins, verja Dirk Nowitzki af öllum mætti eftir að Dwayne Wade, leikmaður Miami, gagnrýndi þýska leikmanninn fyrir skort á leiðtogahæfileikum. Cuban og Johnson skjóta föstum skotum að Wade og segja honum að líta í eigin barm.

Wade hafði látið hafa eftir sér að Nowitzki hefði klúðrað einvíginu við Miami um meistaratitilinn í fyrra þar sem hann hefði ekki leiðtogahæfileikana sem þarf til að gera lið að meisturum. Sá þýski kaus að svara ekki ummælum Wade en það hafa Cuban og Johnson hins vegar gert.

"Þú ert ótrúlegur leikmaður, Dwayne. Ég elska að horfa á þig skora úr vítaskotum. En þú veist ekkert um leiðtogahæfileika Nowitzki. Þú hefur ekki góða skynjun á leiðtogahæfileikum andstæðinga þinna og það er augljóst að þú hefur ofmetið þína eigin hæfileika," sagði Cuban á bloggsíðu sinni á föstudag.

Avery Johnson segir Nowitzki þvert á móti vera mikinn leiðtoga en ítrekar að ekki megi gera of mikið úr orðaskiptunum. "Þetta er bara hans mat. Dawyne er meistarinn og þegar svo er býst ég við að maður megi segi allt sem manni dettur í hug," sagði Johnson.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×