Fótbolti

Atletico og Real skildu jöfn

Markið sem Fernando Torres skoraði í gær var hans fyrsta gegn Real Madrid í deildarleik.
Markið sem Fernando Torres skoraði í gær var hans fyrsta gegn Real Madrid í deildarleik. MYND/Getty

Real Madrid var stálheppið með að sleppa við jafntefli í viðureign sinni gegn nágrönnunum og erkifjendunum í Atletico Madrid í spænsku úrvalsdeildinni í gær. Gonzalo Hugain skoraði jöfnunarmark Real í 1-1 jafntefli þegar um hálftími var eftir en Atletico var mun sterkari aðilinn í leiknum og fór illa með nokkur mjög góð marktækifæri.

Fyrirliði heimamanna, Fernando Torres, hafði komið þeim yfir í fyrri hálfleik með góðu skoti. Eftir mark Hugain pressuðu heimamenn stíft og eftir að Fabio Cannavaro hafði verið vikið af leikvelli þegar um 10 mínútur voru eftir skall hurð oft nærri hælum upp við mark Real. En lærisveinar Fabio Capello héldu leikinn út og prísa sig væntanlega sæla með annað stigið.

Real Madrid er áfram í þriðja sæti eftir leikinn, með 43 stig eftir 24 leiki. Sevilla og Barcelona eru með 46 stig og eiga leik til góða í dag. Atletico er í fimmta sæti deildarinnar með 40 stig.

Í hinum leik gærkvöldsins vann Deportivo La Coruna nauman sigur á Real Sociedad þar sem Javier Arizmendi skoraði eina mark leiksins. Deportivo hefur enn ekki tapað leik á þessu ári í deild og bikar – unnið sex leiki og gert fimm jafntefli í alls 11 leikjum. Liðið er í 9. sæti deildarinnar. Þetta var hins vegar 14. tap Sociedad á leiktíðinni og er liðið í næstneðsta sæti, 11 stigum frá því komast úr fallsæti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×