Fótbolti

Eto´o skoraði í öruggum sigri Barcelona

Samuel Eto´o skorar mark sitt í kvöld.
Samuel Eto´o skorar mark sitt í kvöld. MYND/AFP

Barcelona er komið með tveggja stiga forystu á toppi spænsku úrvalsdeildarinnar eftir léttan 3-0 sigur á Atletico Bilbao á Nou Camp í kvöld. Xavi og Samuel Eto´o skoruðu mörk Barcelona í leiknum auk þess sem eitt markið var sjálfsmark. Eto´o var óvænt í byrjunarliðinu í kvöld en Eiður Smári Guðjohnsen sat allan tímann á varamannabekknum.

Samuel Eto´o var öllum að óvörum í byrjunarliði Barcelona í kvöld og virtist það hafa mjög góð áhrif á lið Barcelona, sem spilaði mun betur en í tapinu gegn Liverpool í meistaradeildinni í síðustu viku. Barcelona er með 46 stig á toppi deildarinnar.

Fyrr í dag hafði Sevilla gert markalaust jafntefli gegn Getafe á útivelli, en Getafe er gríðarlega erfitt heim að sækja og hefur til að mynda aðeins fengið á sig þrjú mörk á heimavelli á tímabilinu. Sevilla er með 44 stig í öðru sæti deildarinnar.

Valencia missti einnig af tækifærinu til þess að saxa á forskot efstu liða með því að ná aðeins 1-1 jafntefli gegn botnliði Gimnastic í kvöld. Joaquin skoraði sitt fyrsta mark fyrir Valencia og kom liðinu yfir í fyrri hálfleik en Ruben Castro jafnaði leikinn þegar tvær mínútur voru komnar fram yfir venjulegan leiktíma. Valencia er með 43 stig, rétt eins og Real Madrid, í 3.-4. sæti deildarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×