Fótbolti

UEFA vísar kæru Lille frá

Ryan Giggs skorar markið umdeilda.
Ryan Giggs skorar markið umdeilda. MYND/AP

Áfrýjunarnefnd Knattspyrnusambands Evrópu (UEFA) hefur vísað frá kæru franska knattspyrnuliðsins Lille sem vildi að mark Ryans Giggs í leik Lille og Manchester United í Meistaradeild Evrópu í síðustu viku yrði dæmt ólöglegt.

Giggs skoraði eina mark leiksins úr aukaspyrnu á meðan franska liðið var enn að stilla varnarvegg upp fyrir hana. Brugðust leikmenn Lille ókvæða við þegar markið var dæmt löglegt og leit um tíma út fyrir að þeir myndu ganga af velli.

Úrskurður áfrýjundarnefndarinnar er hins vegar á þann veg að engin mistök hafi verið gerð í tengslum við markið og því standi úrslit leiksins. Lille getur leitað til eins aðila í viðbót til að fá úrskurðinum hnekkt en ólíklegt er að hann falli fyrir seinni viðureign liðanna í 16 liða úrslitum Meistaradeildarinnar sem fram fer á miðvikudag.

Hins vegar mun aganefnd UEFA fjalla um viðbrögð leikmanna Lille síðar í mánuðinum en félagið hefur neitað því að leikmenn hafi ætlað að ganga af velli.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×