Handbolti

Ísland hafnaði í fjórða sæti í Frakklandi

Alfreð Gíslason og lærisveinar hans hafa oft spilað betur en þeir gerðu í Frakklandi um helgina.
Alfreð Gíslason og lærisveinar hans hafa oft spilað betur en þeir gerðu í Frakklandi um helgina.

Íslendingar höfnuðu í fjórða og síðasta sæti á æfingamótinu í Frakklandi eftir að hafa gert jafntefli við Túnisa í lokaleik sínum í dag, 30-30. Túnisar skoruðu jöfnunarmarkið úr hraðaupphlapi þegar þrjár sekúndur voru til leiksloka eftir. Túnisar höfðu betri markatölu en Íslendingar og hafna því í þriðja sæti.

Túnis var yfir í hálfleik, 16-15, og komst í 21-16 í upphafi síðari hálfleiks. Íslendingar náðu hins vegar með mikilli baráttu að jafna metin í 23-23 um miðjan síðari hálfleik og þegar níu mínútur voru til leiksloka voru Íslendingar komnir yfir, 26-25.

Lokamínúturnar voru æsispennandi. Túnisar komust aftur yfir, 29-27, þegar fimm mínútur voru eftir en með harðfylgi náðu íslensku leikmennirnir að komast yfir á ný, 30-29, þegar rúm ein mínúta var til leiksloka. Íslenska liðið vann síðan boltann þegar rúm hálf mínúta var eftir, einu marki yfir og einum leikmanni fleiri, en fór afar illa að ráði sínu í blálokin. Túnisar unnu boltann, brunuðu fram og skoruðu jöfnunarmarkið þegar þrjár sekúndur voru eftir.

Frakkar sigruðu á mótinu með því að leggja Pólverja af velli í lokaleik sínum, 26-20. Frakkar unnu alla sína leiki og hlutu sex stig, Pólverjar höfnuðu í 2. sæti með fjögur stig, en Túnisar og Íslendingar hlutu eitt stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×