Innlent

Dómsmálayfirvöld þurfa að rannsaka tilurð og upphaf Baugsmálsins

Valgerður Sverrisdóttir, varaformaður Framsóknarflokksins. Valgerður starfaði sem iðnaðar- og viðskiptaráðherra og seinna var hún utanríkisráðherra í ríkisstjórn Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks.
Valgerður Sverrisdóttir, varaformaður Framsóknarflokksins. Valgerður starfaði sem iðnaðar- og viðskiptaráðherra og seinna var hún utanríkisráðherra í ríkisstjórn Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks. MYND/PJ

Dómsmálayfirvöld þurfa að rannsaka tilurð og upphaf Baugsmálsins að mati Valgerðar Sverrisdóttur, varaformanns Framsóknarflokksins og fyrrverandi ráðherra. Þetta kom fram í viðtali við Valgerði sem birtist í Viðskiptablaðinu síðastliðinn föstudag. Valgerður segir hátt hafa verið reitt til höggs í Baugsmálinu og segir málið allt með endemum.

Í viðtalinu segir Valgerður að nýfallinn sýknudómur yfir Jóni Ásgeiri Jóhannessyni í Héraðsdómi Reykjavíkur kalli á að dómsmálayfirvöld í landinu rannsaki upphaf málsins og tilurð. Í því samhengi bendir hún á mikilvæg þess að allir séu jafnir fyrir lögum. „Þetta hlýtur að verða til þess að dómsmálayfirvöld rannsaki þetta mál og upphaf þess. Hvert var upphaf þess og hvernig varð það til?" segir Valgerður meðal annars. „Ég veit bara og upplifði hvernig sjálfstæðismenn töluðu um þessa menn sem þarna eiga í hlut."

Þá segir Valgerður málið stórt og enn eigi eftir að ræða allar hliðar þess. „En þetta er stórt mál og á eftir að fá frekari umfjöllun í þjóðfélaginu."


Tengdar fréttir

Hreinn Loftsson vonar að fleiri opni sig um Baugsmál

Hreinn Loftsson, fyrrum stjórnarfomaður Baugs Group, segist sammála Valgerði Sverrisdóttur fyrrum viðskiptaráðherra um þörfina á sérstakri rannsókn á tilurð Baugsmálsins. Hreinn sagði í samtali við Vísi í dag, að sérstaklega þyrfti að skoða allt í kringum það sem kallað er Bolludagsmálið. "Þar keyrði um þverbak," segir Hreinn. "Það mál var hreinlega rugl."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×