Gengi bandaríkjadals fór í sögulegt lágmark gagnvart evru í dag í kjölfar 50 punkta lækkunar á stýrivöxtum í Bandaríkjunum á þriðjudag. Þá hefur gengi evru styrkst eftir að evrópski seðlabankinn gaf í skyn að stýrivextir hækki á evrusvæðinu á næstu mánuðum.
Samkvæmt þessu kostar evran 1,4018 Bandaríkjadali.
Fjármálaskýrendur eru ekki á einu máli hvaða þýðingu þetta hafi. Í aðra röndina séu þetta góðar fréttir fyrir innflutningsfyrirtæki í evrulöndunum, ekki síst fyrir þá sem kaupa hrávöru og olíu, sem alla jafna greiðist í dölum, en vörurnar verða ódýrari vegna gengismunarins. Á móti getur þetta orðið til þess að draga úr útflutningi frá evrulöndunum, ekki síst til Bandaríkjanna.