Fótbolti

Liverpool í vænlegri stöðu

NordicPhotos/GettyImages

Liverpool er í vænlegri stöðu þegar flautað hefur verið til hálfleiks í leikjum kvöldsins í Meistaradeildinni. Liðið hefur yfir 2-0 gegn slöku liði Marseille á útivelli eftir að Steven Gerrard og Fernando Torres skoruðu mörkin á fyrstu 11 mínútum leiksins.

Steven Gerrard fiskaði vítaspyrnu eftir um fjórar mínútur þegar hann lét sig detta í vítateignum, en klaufalegur varnarmaður franska liðsins gaf dómaranum fáa kosti aðra en að dæma víti. Gerrard lét reyndar verja frá sér vítið en fylgdi því eftir sjálfur og skoraði. Skömmu síðar skoraði Torres laglegt mark og kom enska liðinu í þægilega stöðu.

Á sama tíma er Porto yfir 1-0 á heimavelli gegn Besiktas og því færu Porto og Liverpool upp úr A-riðlinum ef flautað væri af í stöðunni.

Í B-riðlinum er markalaust hjá Chelsea og Valencia en Schalke er að vinna Rosenborg 3-1 og því útlit fyrir að Chelsea og Schalke fari þar áfram.

Í C-riðli er Real Madrid yfir 3-0 í hálfleik gegn Lazio með mörkum frá Baptista, Raul og Robinho og Olympiakos hefur yfir 1-0 gegn Bremen. Real og Olympiakos eru því í vænlegri stöðu í þeim riðli.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×