Fótbolti

Nú einbeitum við okkur að United

NordicPhotos/GettyImages

Rafa Benitez hrósaði liði sínu í hástert eftir sigurinn á Marseille í Meistaradeildinni í kvöld en vildi lítið tjá sig um þau skilaboð sem sigurinn sendi forráðamönnum félagsins.

Sum bresku blaðanna gengu svo langt að segja að leikurinn yrði sá síðasti hjá Benitez ef Liverpool færi ekki áfram í 16-liða úrslitin, en önnur gerðu því skóna að sigur liðsins gæti þýtt að Benitez gæti ítrekað kröfur sínar um að fá að kaupa leikmenn í janúar.

Spánverjinn vildi lítið tjá sig um þetta eftir leikinn í Frakklandi og sagðist strax vera farinn að hugsa um stórleikinn gegn Manchester United um helgina.

"Ég var að hugsa um leikinn og ekkert annað og nú fer ég að einbeita mér að því að undirbúa liðið fyrir leikinn gegn Manchester United. Ég mun reyna að tryggja það að allir hugsi um leikinn um helgina og ég er ekki að hugsa um peningalega þýðingu úrslitanna - ég er að hugsa um næstu umferð. Leikmennirnir stóðu sig allir með prýði í kvöld og ég er líka ánægður fyrir hönd stuðningsmanna okkar. Strákarnir voru einbeittir í kvöld og við réðum algjörlega ferðinni í kvöld eftir að við náðum að skora snemma," sagði Benitez.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×