Fótbolti

Eiður Smári: Berum fulla virðingu fyrir Celtic

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Eiður Smári í leik með Barcelona.
Eiður Smári í leik með Barcelona. Nordic Photos / AFP

Eiður Smári Guðjohnsen segir að það sé erfitt verkefni sem bíði Barcelona í 16-liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu.

Barcelona og Glasgow Celtic drógust saman í 16-liða úrslitunum í dag. Í viðtali við Sky Sports segir hann það af og frá að það verði formsatriði fyrir Börsunga að komast áfram í fjórðungsúrslit keppninnar.

„Það eru engir auðveldir leikir á þessu stigi keppninnar," sagði Eiður. „Ég held að öll liðin sem eftir eru í keppninni búi yfir miklum gæðum og sterkum karakter."

„Þegar maður spilar fyrir Barcelona verður maður fyrst og fremst að hugsa um eigin frammistöðu. Við verðum að spila eins og við best getum og hafa ekki of miklar áhyggjur af andstæðingnum."

„Við berum fulla virðingu fyrir Celtic en félagar mínir hafa sagt mér að það var ekki auðvelt þegar liðin mættust fyrir nokkrum árum. Við verðum vel meðvitaðir um þá ógn sem stafar af þeim."

Tímabilið 2003-4 sló Celtic Barcelona úr leik í UEFA-bikarkeppninni. Ári síðar léku liðin í sama riðli í Meistaradeildinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×