Fótbolti

Belgar ætla að slátra Cristiano Ronaldo

MYND/Reuters

Stijn Stijnen, markvörður Brugge og belgíska landsliðsins, segir sína menn muni slátra Cristiano Ronaldo þegar Belgar mæta Portúgölum í landsleik í Lissabon á laugardaginn. George Boateng hjá Middlesbrough lét svipuð orð falla um Ronaldo í viðtali í gær, þar sem hann sagði að stutt væri í að einhver myndi meiða hann alvarlega ef hann hætti ekki að reyna að niðurlægja andstæðinga sína.

"Ronaldo á eftir að fara af velli á börum eftir tvær mínútur á laugardaginn. Við munum slátra honum. Hvað annað getum við gert? Portúgal er með leiknari menn innan sinna raða og því verðum við að grípa til örþrifaráða. Ef við reynum að spila eins og þeir - munum við sannarlega tapa," sagði Stijnen. Yfirlýsing hans olli nokkru fjaðrafoki en hann reyndi ekki að draga mikið úr því þegar hann var spurður hvort Belgar ætluðu að fótbrjóta portúgölsku stjörnuna.

"Mér finnast orð mín ekki hneykslanleg. Við erum á útivelli og verðum að spila okkar leik. Ég var ekki að meina að við ættum bókstaflega að meiða Ronaldo og koma honum af velli. Við þurfum ekki beinlínis að fótbrjóta hann - en það þýðir ekkert að vera að hlífa löppunum á andstæðingunum," sagði markvörðurinn.

Í gær sagði George Boateng hjá Middlesbrough að stutt væri í að einhver myndi meiða Ronaldo ef hann hætti ekki að niðurlægja andstæðinga sína með sýndarmennsku sinni. "Einhver mun meiða Ronaldo illa ef hann hættir ekki þessari sýndarmennsku og þá mun hann verða frá í langan tíma," sagði Boateng í gær.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×