Innlent

Það er verra veður um helgar

Nú er úti veður vont.
Nú er úti veður vont.

Það vita allir að það rignir meira um helgar en á virkum dögum. Þetta hefur nú verið vísindalega staðfest. Slæmu fréttirnar er að þetta er okkur sjálfum að kenna. Tveir þýskir viðurfræðingar, við háskólann í Karlsruhe hafa skoðað veðurfar á tólf stöðum í Þýskalandi á árunum 1991 til 2005 og hafa komist að því að daglegt líf mannskepnunnar hefur ekki bara langtíma áhrif á veðrið, heldur einnig skammtíma áhrif.

Ástæðan fyrir verra veðri er að bílar eru notaðir meira á virkum dögum en um helgar og þá er orkunotkun einnig meiri. Útblástur og og örfínt ryk sem við þetta myndast verður að svifryki sem bindur raka í loftinu og leiðir til óeðlilegrar skýjamyndunar.

Þegar kemur að helgi hefur skýjamyndunin náð hámarki og einmitt þegar við erum að pakka í bílinn fyrir helgarferðina, eða fara á völlinn, detta skýin í hausinn á okkur. Samkvæmt tölfræði veðurfræðinganna er hlýjast á miðvikudögum en kaldast á laugardögum. Næstum sama er að segja um úrkomu, hún er minnst á mánudögum en mest á laugardögum.

Á þriðjudögum sést sólin að meðaltali um fimmtán mínútum lengur en á laugardögum. Veðurfræðingarnir segja að þetta sé enn meira áberandi á sumrin en veturna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×